Í Neskaupstað búa vinkonurnar og nágrannarnir Hulda Svanlaug Bjarnadóttir fædd 1926 og Unnur Bjarnadóttir fædd 1933. Þessar kjarnakonur hafa vakið athygli bæjarbúa en þær láta aldurinn ekki hindra sig í að lifa virku lífi og þær sinna sem dæmi bæði garðyrkju og snjómokstri þrátt fyrir að vera á níræðis- og tíræðisaldri. Það var því tilvalið að hitta þær yfir kaffibolla og fræðast meira um lífið og tilveruna.
Hulda er fædd á Hornafirði, er innflutt eins og þær orða það. Var 17 ára gömul ráðin sem vinnukona inn á heimili mágkonu Unnar og flytur 1947 í húsið sem hún býr í núna, til Þórarins sem seinna varð eiginmaður hennar og móður hans. Unnur er fædd í húsinu sem hún býr í. Fyrst bjó hún með foreldrum sínum og svo með eiginmanni sínum Ásgeiri og börnum. Þær hafa því verið nágrannar síðan 1947.
Í þá daga var ekkert um að konur færu mikið í kaffi til hvorrar annarrar, líklega þar sem þær leyfðu sér bara almennt ekkert að vera að eyða tíma í kaffispjall. Áttu nóg með barnahópinn, heimilisstörf og voru oft í öðrum störfum utan heimilisins. 26 ár eru síðan Hulda varð ekkja en Unnur missti eiginmann sinn árið 2018. „Aldrei verið misklíð á milli okkar“ segir Unnur. „Það er gott að eiga góða nágranna“.
Erfið lífsreynsla tengdi þær saman
Náinn samgangur þeirra á milli byrjaði ekkert fyrr en þær missa drengina sína árið 1978 en þessi erfiða reynsla tengdi þær saman og hafa þær verið góðar vinkonur síðan. En á páskadag 26.mars 1978 fórust synir þeirra Sævar og Hólmsteinn í snjóflóði fyrir ofan Neskaupstað.
Starfsemin í Félagi eldri borgara í Neskaupsstað var lífleg
Árið 1992 var félag eldri borgara í Neskaupstað stofnað og var Hulda og eiginmaður hennar einn af stofnfélögum. Félagið var mjög virkt í mörg ár en starfsemin hefur farið minnkandi með árunum og endurnýjun ekki mikil. Einnig hafi þau misst lykilfólk sem stuðlaði að líflegri starfsemi eins og Ágúst Ármann sem var óþreytandi að mæta og spila undir dansi og söng. Starfsemin var lífleg og var eitthvað í boði í félaginu alla daga vikunnar. Unnur var með leikfimitíma með Stefáni Þorleifssyni, svo var dans, kór, handavinnukvöld og opið hús. Svo bökuðu þær laufabrauð fyrir jólin og seldu. Félagið sá um allar erfidrykkjur bæjarins og kaffihlaðborð á lykildögum. Félag eldri borgara bauð upp á ferðir bæði innanlands og utanlands sem þær tóku þátt í. Vorfagnaður í bæjarfélögunum sitt á hvað og alltaf gönguferðir á laugardögum.
Vinkonurnar mjög virkar í félagsstörfum
Þær voru báðar virkar í félagsstörfum í bænum. Hulda var einn af stofnendum Þroskahjálpar á Austurlandi. Stóð fyrir byggingu á Vonarlandi og sundlauginni þar. Hún starfaði mikið í því félagi. Unnur var í ótalmörgum félögum á þessum tíma líka auk þess sem hún hefur alltaf stundað einhverja hreyfingu og íþróttir.
Líkamsræktin; snjómokstur og garðyrkja er ókeypis
Vinkonurnar eru spurðar að því hver þær telji vera lykillinn að því að halda sér virkum á efri árum. Þær eru hógværar í svörum sínum en mæla með því að vera dugleg að mæta á það sem er í boði. Þær fara í göngutúra hvor í sínu lagi, moka snjó á veturna og stunda garðrækt sex daga vikunnar á sumrin. Hulda bendir á að það sé ókeypis líkamsrækt að moka snjó og stunda garðyrkju. „Við erum ekkert á tímakaupi í þessu, förum bara rólega í þetta“. Mikið af fallegum og þægilegum gönguleiðum eru í boði í kringum bæinn eins og í kringum snjófjallagarðana, smábátahöfnina og út að Páskahelli.
Það er ekki fyrir alla að vera í svona stússi
Þegar þeim er bent á að þær séu duglegar að hreyfa sig, hvort það sé kannski lykillinn að því að viðhalda góðri heilsu þá svara þær að það sé kannski ekki fyrir alla að vera í svona stússi, en að þeim finnist þetta gefa lífinu gildi. Því meira sem er að gera, því meira njóti þær þess. Viðhorfið sé öðruvísi. Unnur bendir á að auðvitað sé heilsa misjöfn hjá fólki og góð heilsa og langlífi liggi kannski í genum. „Til dæmis er eldra fólk mjög oft búið að fara í liðskipti og svona og það hamlar getunni til að hreyfa sig“. Hulda bendir á að svo sé orðin svo mikil afþreying sem fólk hafi heima hjá sér svo það er minni þörf fyrir að fara út á meðal fólks. Unnur segist alltaf hafa hreyft sig mikið og áður fyrr gekk fólk yfirleitt allt. En það sé mikil vakning á gildi hreyfingar meðal fólks og sér finnist það hafi aukist á Covid tímum.
Hluti af lífsgæðunum er að fá fólk í heimsókn
Báðar njóta þess líka að fá fólk í heimsókn til sín í kaffi og það sé stór hluti af lífsgæðunum og svo kíki þær mikið í kaffi til hvorrar annarrar. Þegar snjóar mikið mokar Sveinlaug dóttir Huldu slóð á milli húsanna svo sé fært á milli sama hvernig viðrar.
Hulda segist þakka guði góða heilsu númer eitt. Og svo að vera jákvæður og vera ekkert að hugsa um hvað maður er gamall. Ef að maður hefur þrek og heilsu eigi maður bara njóta þess. „Ekki vera að hugsa að maður megi ekki gera þetta eða hitt af því maður sé svona gamall. Ég hugsa bara ekkert svoleiðis“ segir hún.