Sigurður Óskarsson oft kallaður Siggi á Hvassó er einn af þremur handverksmönnum sem sýna verk sín í Safnahúsinu í Vestmannaeyjum þessa dagana. Aðspurður um aldur sagðist Siggi fyrst vera 67 ára, síðan 78 ára en sagðist annars vera löngu hættur að telja enda aldur bara tala. Þarna er klárlega maður með skemmtilegan húmor á ferð.
Við tókum stutt spjall við Sigga um listaverkin hans sem við erum mest hissa á að hafi ekki ratað fyrir augu almennings fyrr, svo flott eru þau og greinilega nostrað við hvert smáatriði.
Siggi vinnur með tré sem hann rennir, pússar og lakkar og gerir allt mögulegt úr, ýmsa gripi og vita líka. Þarna er að sjá muni úr tekk, mahony, beyki og binditré sem hann segir mjög gott að skera út. Hann segir mahony vera skemmtilegt, það sé hægt að púsla því saman eftir kúnstarinnar reglum. Svo snýr maður þessu sitt og hvað og fær skugga í hlutina. Siggi fékk fyrsta rennibekkinn 2009 og hafði niðrá verkstæði, lítill kettlingur segir hann. Svo keypti ég annan og svo á ég líka kóperingagræjur. Gæti gert eitt stykki og gert síðan mörg nákvæmlega eins.
En hvar fær Siggi hugmyndir af verkunum ?
Mér dettur eitthvað í hug og svo fer ég að pæla í hvernig á að leysa þetta. Það er ekki einfalt að leysa hvernig á að búa hlutina til, stundum er ég með þetta í huganum í einhverja daga og svo byrja ég að laga þetta útskýrir Siggi sem greinilega er sannkallaður uppfinningamaður. Hef líka búið til hluti með kóperingagræjunni til að setja ofan á grindverk, svona hatta útskýrir hann. Eins og er heima hjá Hermanni Kristánssyni.
Ertu að selja þessa muni ?
Nei, ég er ekki að selja þetta , þetta yrði að vera svo dýrt ef ég ætlaði að selja þetta að það myndi ekki nokkur maður kaupa þetta segir hann og hlær við. Svo ég safna þessu bara, þetta er fyrir mér svona ögrun. Maður er alltaf að ögra sjálfum sér, Hvað kemstu langt ? Hvar strandarðu ?
Hvar ertu með aðstöðu ?
Ég er með verkstæði heima og er einn í þessu öllu, ekki einhverjir saman í þessu og geri mest á haustin. Ég er svo með fullt af öðrum munum heima, ekki nærri alla hér til sýnis.
Eru mörg ár síðan þú hættir að vinna ?
Hef ég nokkurn tímann byrjað á því ? Þú ert bara með kjaft segir Siggi og glottir við, hissa á spurningunni. Annars er ég alltaf eitthvað að vinna eða ég held það alla vega sagði hann. En við vitum líka aldeilis að Siggi hefur ekki setið auðum höndum um ævina og er margt til lista lagt. Hann hefur komið víða við á starfsferlinum, er lærður húsasmíðameistari, var lengi kafari, rak kranafyrirtæki, var útgerðarmaður, smíðaði plastbáta og átti gluggaverksmiðju, svo fátt eitt sé nefnt.
Við höfum einnig hlerað að Siggi sé tónlistarmaður mikill og hafi samið mikið af undurfögrum lögum og textum og verið í hljómsveitum og þar á meðal vinsællri danshljómsveit sem bar nafnið Hljómsveit SÓ. Það er aldrei að vita nema við náum Sigga á lengra spjall síðar.