Níræður og stendur á haus

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Þann 23. september s.l fagnaði Óskar Hafsteinn Ólafsson fyrrverandi kennari og aðstoðarskólameistari við Menntaskólann á Laugarvatni níræðisafmælinu sínu. Óskar starfaði við kennslu á Laugarvatni í yfir þrjá áratugi en hann er ættaður úr Mýrdalnum en hefur verið búsettur á Selfossi samt eiginkonu sinni Margréti Steinu Gunnarsdóttur síðustu árin. Við tókum stutt viðtal við Óskar Hafstein en hann er ótrúlega hress og vel á sig kominn.

Listin að standa á haus

Óskar hugsar vel um heilsuna og getur ennþá staðið á haus þótt níræður sé enda aldur bara tala. Þegar hann var strákur í Fagradal í Mýrdal var þar maður sem kenndi honum og þremur öðrum drengjum að standa á haus. Í þá daga var umferð um sveitina öllu minni en í dag en þegar vart var við bíla tóku drengirnir í Fagradal sig til, hlupu að veginum og stóðu á haus meðan ekið var framhjá. Var um það rætt hjá bílstjórunum hversu skemmtilegt væri að sjá drengina framkvæma þennan gjörning. Óskar hefur svo haldið sér við alla sína tíð og æfir reglulega að standa á haus. Hann vill meina að þetta geri honum gott, fínt sé að fá blóðrásina upp í höfuð og hefur hann nú þegar kennt barnabörnum sínum að standa á haus.

Mynd úr einkasafni / Óskar og Magga á 90 ára afmælinu

En hvað fleira gerir Óskar Hafsteinn til að halda góðri heilsu ?

Áður fyrr var Óskar duglegur að ganga á fjöll. Í dag viðheldur hann góðri líkamlegri heilsu með því að fara í sund á hverjum degi og síðan hjólar hann einnig reglulega. Þegar spjallað er við Óskar skynjar maður að hann er ekki bara hraustur líkamlega heldur andlega líka og hafsjór af fróðleik. Óskar var spurður hvað hann gerði til að halda andlegri heilsu sinni og huganum virkum.

Óskar sagðist ráða mikið krossgátur og það sé mjög gott ráð til að staðna ekki. Hann bíður t.d alltaf spenntur eftir sunnudagsmogganum sem kemur reyndar á laugardögum og gleymir sér þá jafnan í krossgátunni sem þar er. Jafnan er það svo að Magga á erfitt með að ná sambandi við hann á meðan, svo áhugavert finnst honum viðfangsefnið. Síðan spilar hann bridge tvisvar sinnum í viku ásamt félögum sínum og það skiptir líka máli varðandi það að halda huganum við.

Í seinni tíð hafa þau hjónin létt á mataræði sínu og borða langmest fiskmeti enda afburðargóð fiskbúð á Selfossi að þeirra sögn. Kjötið er hverfandi af þeirra diskum en þau borða einnig mikið af grænmeti og ávöxtum. Það er ekki annað að sjá en að það fæðuval og hollur lífstíll sé að reynast vel þessum yndælishjónum á Selfossi.

Tengdar greinar