Þórólf langar í jólafrið, gleði og lágar covid tölur í jólagjöf

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur staðið í ströngu síðustu mánuði í baráttunni við kórónuveiruna.  Við dáumst að úthaldi hans og þreki og líklega má segja að við sjáum glöggt á honum að aldur sé bara tala því hann náði skilgreindum eldri borgara aldri á dögunum þegar hann fagnaði 67 ára afmælinu sínu. 

En lífið snýst um meira en kórónuveiruna og þar sem það styttist í jólin og aðventan er að byrja á sunnudaginn lék okkur forvitni á að vita hvað Þórólfur óskaði sér helst í jólagjöf.  Það stóð ekki á svari og hann sagðist helst óska sér jólafriðar, gleði og lágra covid talna.  Hann sagði ekki ljóst á þessari stundu hvort jólahaldið hans yrði með hefðbundnu sniði en sagði að það gæti þurft að fækka verulega öllum jólasamkvæmum.

En uppáhaldsjólahefðirnar hans Þórólfs eru einmitt fjölskyldusamkomur og að skreyta jólatréð.  Hvað sem verður og þó að jólin verði kannski aðeins öðruvísi í ár, ætlar Þórólfur að hafa hamborgarhrygg í jólamatinn.    

Tengdar greinar