Við hittum Möggu á fallegum októberdegi á heimili hennar sem státar af einu fallegasta útsýni á landinu með Dyrhólaey í bakgarðinum. Margrét Guðmundsdóttir er 72 ára og býr ásamt eiginmanni sínum Þorsteini Gunnarssyni bónda og fyrrverandi vitaverði á Vatnsskarðshólum í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Margrét eða Magga eins og hún er jafnan kölluð er fædd og uppalin í Dalsmynni á sunnanverðu Snæfellsnesi, en þar voru foreldrar hennar með búskap. Þau voru 11 systkinin og á sumrin bættust oft við fleiri börn á heimilið, bæði var um að ræða frændfólk og börn sem áttu í ýmis konar vanda. Við vorum öll látin taka ábyrgð snemma við ýmis bústörf, heimilið sagði Magga, auk þess sem við aðstoðuðum og gættum yngri systkina og allt gekk þetta einhvern veginn upp.
Gekk í Kvennaskólann í Reykjavík – sem þá var eingöngu fyrir stúlkur
Magga fór í Kvennaskólann í Reykjavík í fjögur ár en þá fengu aðeins stúlkur inngöngu í skólann. Eftir útskrift vann hún við skrifstofustörf hjá Jóhann Ólafsson & Co., í fimm ár. Á þeim tíma kynntist hún eiginmanni sínum, Þorsteini ( Steina), sem vann við húsasmíðar. Þau fóru oft austur að Vatnsskarðshólum um helgar til að aðstoða foreldra hans við búskapinn, sem voru þá með blandað bú og rófurækt. Það endaði síðan með því að þau fluttu austur og stofnuðu félagsbú með foreldrum Steina og bróður hans. Það var búið þröngt fyrstu árin, en fyrsta barn þeirra hjóna var þá fætt. Magga og tengdamóðir hennar skiptu með sér vikunum í úti og inniverkum, þannig gekk allt vel upp. Magga og Steini byggðu sér síðan einbýlishús á jörðinni sem þau búa í enn þann dag í dag.
Vatnsskarðshólar austan 1, léttskýjað, talsverður sjór, hiti 4 stig
Veðurathugun kom að Vatnsskarðshólum 1978. Stefán Gunnarsson bróðir Þorsteins hafði þá umsjón með því, eftir að hann fluttist þaðan tóku tengdaforeldar Möggu við veðurathuguninni. Eftir þeirra dag kom það í hlut Möggu og Steina að sjá um veðurathuganir á Vatnsskarðshólum. Lengi vel var veðrið tekið 7x á sólarhring eða á þriggja tíma fresti nema þrjú að nóttu. Í veðurathugun fellst, að greina skýjafar, lesa af hitamælum, greina vindátt og vindhraða, mæla úrkomu, athuga jarðlag og sjólag, meta skyggni og gera veðurlýsingu á hverjum tíma. Í dag er veðrið tekið 4 x á sólarhring og er orðið tæknivæddara, þar sem vindmælir mælir vindstyrk og vindátt.
Úrkoma í grennd, klósigar, maríutása og vatnsklær
Fyrstu áratugina var alltaf hringt inn til Veðurstofunnar og lesin upp talnaruna sem geymdi upplýsingar um veðurfar þá stundina. Í dag er allt skráð í tölvu og sent gegnum hana. ,,Í lok mánaðar þarf að skrifa niður yfirlit yfir mánuðinn, þá geri ég heildarlýsingu á veðurfari mánaðarins í grófum dráttum, það fer auðvitað eftir árstíðum, en ég skrái t.d. hvernig grasspretta er, garðrækt, hvernig lömb koma af fjalli, komu og brottfarir farfugla o.fl. í þeim dúr. Það getur verið gaman að fylgjast með þessum hlutum og eins hef ég mjög gaman af að skoða skýin og hvað þau tákna.“segir Magga, en skýin bera mörg hin skrítnustu nöfn eins og maríutása, klósigar og vatnsklær.
Formaður í félagi eldri borgara í Mýrdalshrepp
Magga tók við sem formaður í Samherja, félagi eldri borgara í Mýrdal, 5. mars síðastliðinn. Magga er vön félagsstörfum, en í gegnum tíðina hefur hún starfað í búnaðarfélaginu, kvenfélaginu, ungmennafélaginu auk þess sem hún hefur tekið þátt í pólitísku starfi. Þegar Magga tók við formennsku í félagi eldri borgara lék allt í lyndi en síðan hefur kórónaveiran sett strik í reikninginn. Í venjulegu árferði er dagsskráin þó blómleg hjá félaginu sem telur 43 félaga. Yfir vetrartímann eru félags- og skemmtifundir fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. En félagið hefur góða aðstöðu til fundarstarfa á Hótel Kötlu. Á hverjum fundi eru hefðbundin fundarstörf og eftir kaffihlé tekur skemmtinefndin við og sér um ýmis konar, fjölbreytta dagsskrá s.s bingó, upplestur, myndasýningu o.fl. Fyrir jólin er svo jólafundur og jólamatur, þá er gestum og mökum boðið. Mikið samstarf er við eldri borgara kórinn sem er mjög öflugur, því er söngur stór hluti af starfinu. Á þessu ári hafa nokkrir félagsmenn átt stórafmæli. Í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu var ákveðið að allir sem ættu stórafmæli 80 ára og eldri fengju söng fyrir utan heimili sín. Þá komu allir þeir félagar sem gátu og tóku þátt í söngnum, afmælisbarninu til mikillar gleði.
Á hverju sumri höfum við fyrir sið að bjóða heimilisfólki á dvalar-og hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík, í lautarferð. En þá er valinn góður sumardagur, boðið upp á veitingar úti í guðsgrænni náttúrunni, söng og skemmtiatriði eða einhverja fræðslu um staðinn.
„Það er svo góður andi í félaginu og allir vilja allt fyrir alla gera.“
Magga segir góðan anda í félaginu og að allir vilji allt fyrir alla gera. Gönguhópar eru starfandi innan félagsins. Allir félagsmenn hafa aðgang að sundlauginni, íþróttahúsinu og tækjasal tvisvar í viku, sem hefur verið vel nýtt. Einnig er ferðast saman árlega, annað árið er farin helgarferð og hitt árið er farin dagsferð. Félagið hefur aðgang að félagsheimilinu Leikskálum í Vík tvisvar í viku. Ætlunin var að hafa námskeið þar sem kennt væri á spjaldtölvur í vetur en það býður betri tíma. En í þessu kórónuveiruástandi segir Magga að starfsemin sé að mörgu leyti lömuð, en hún finni að fólk sé duglegt að hringja sín á milli og halda tengslum eins og hægt er.
Er aldur bara tala?
„Aldur er algjörlega bara tala“ segir Magga. ,,Það eru heilmikil forréttindi að fá að eldast og vera eldri borgari, en þá finnur maður hvað heilsan er mikilvægur þáttur í því að geta notið efri áranna. Hreyfing og mataræði skipta miklu máli, ég sjálf fer mikið í stafgöngu og sund er í miklu uppáhaldi. Á tímum sem þessum sér maður hvað það er mikilvægt fyrir fólk á okkar aldri að geta bjargað sér í netheimum, bæði hvað varðar samskipti við vini og fjölskyldu og ekki hvað síst að kunna að nýta sér ýmsa þjónustu og sækja sér upplýsingar. Sú þekking veitir manni meira sjálfstæði og aukið sjálfstraust í að bjarga sér sjálfur“, sagði Magga hress að lokum.